Frumtak 2 áætlar að fjárfesta fyrir 1 milljarð á árinu

Eggert Claessen. Mynd: Frumtak.is
Eggert Claessen. Mynd: Frumtak.is

Frumtak 2 áhættufjárfestasjóður ráðgerir að fjárfesta í að minnsta kosti fjórum fyrirtækjum það sem eftir er af árinu. Heildarfjárfesting verði 1 milljarður. Frumtak 2 var stofnaður í vor og hefur enn ekki tilkynnt um neinar fjárfestingar. Miðað við þessar upplýsingar, mun sjóðurinn fjárfesta að meðaltali 200 milljónum á mánuði það sem eftir er ári.

Þetta kemur fram í samtali Norðurskautsins við Eggert Claessen, framkvæmdastjóra sjóðsins, í umfjöllun um fjárfestasjóðina þrjá sem tilkynntu fjármögnun í vor; Frumtak 2, Eyri Sprota og Brunn Vaxtarsjóð.

Frumtak 2 er 5 milljarða króna sjóður sem fjárfestir fyrir 100-500 milljónir í fyrirtækjum sem komin eru af klakstigi.

Greiðsluappið Sway fær fjármögnun frá Investa

Félagið á bakvið greiðsluappið Sway, sem þeir gáfu út á iOS fyrir um þremur vikum gekk á svipuðum tíma frá samningum við fjárfestingafélagið Investa um fjármögnun á félaginu. Ekki fæst uppgefið hver upphæð fjárfestingarinnar frá Investa er. Fyrirtækið hafði áður fengið 20 milljónir frá ónefndum fjárfestum. Android útgáfan er væntanleg í ágúst.

Haraldur Þorkelsson. Mynd: investa.is
Haraldur Þorkelsson. Mynd: investa.is

Í kjölfar fjárfestingar frá Investa mun Haraldur Þorkelsson taka sæti í stjórn Sway fyrir hönd fjárfestanna. Haraldur var áður hjá OZ þar sem hann stýrði vöruþróun, og fór til Nokia þegar félagið var selt þangað. Félagið Investa er samkvæmt heimasíðu félagsins „fjárfestingafélag sem fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum sem eiga góða möguleika á að hasla sér völl erlendis.“ Ásamt Haraldi standa á bak við Investa þeir Jói Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður Google og stofnandi Crankwheel; Hjálmar Gíslason, sem stofnaði og nýlega seldi Datamarket og Hilmar Gunnarsson, sem var í OZ á sínum tíma og stofnaði nýlega og seldi félagið Modio.

Samkvæmt Arnari Jónssyni, framkvæmdastjóra Sway, er mikill fengur fyrir félagið að fá aðgang að reynslu fjárfestanna og gæðastimpilinn sem fylgir því að fá fjárfestingu frá Investa.

Hér má sjá fyrri umfjöllun Norðurskautsins um Sway.

Fjármögnun sprotafyrirtækja: Hvernig hún virkar og er að breytast – Hlaðvarp Norðurskautsins

Í þætti dagsins fjalla Kiddi og Jökull um fjármögnun sprotafyrirtækja, og hvernig hún gengur almennt fyrir sig í Kísildal. Einnig ræðum við um háværa umræðu vestanhafs um mögulega bólu í fjármögnun tæknisprota, og veltum fram spurningum um umhverfið hér á landi.

Hér er bloggfærslan hans Semil sem við ræðum, og bloggfærslan sem hann fjallar um er hér.

Strimillinn á lista TÞS yfir styrkþega 2015

Strimillinn er á lista yfir þá sem Tækniþróunarsjóður ætlar að bjóða til samninga fyrir fyrri úthlutun árs 2015. Lítur út fyrir að Strimillinn fái frumherjastyrk, en þeir eru yfirleitt í kringum 14 milljónir á tveim árum, þ.e. 7 milljónir á ári.

Strimillinn er hugbúnaður sem fylgist með verðlagi matvöruverslana á Íslandi, og hefur verið umtalað sem einn mest spennandi sprotinn þessa dagana síðan verkefnið vann Gulleggið fyrir í vor. Varan myndgreinir ljósmyndir af strimlum sem notendur senda inn eftir matvörukaup, og fylgist þannig sjálfkrafa með verðlagsþróun.

Opið er fyrir prófanir hjá Strimlinum og geta áhugasamir tekið þátt í að þróa vöruna á heimasíðu þeirra, strimillinn.is

Radiant Games boðið að pitcha á ‘Invest in Games’

Radiant Games, íslenskt tölvuleikjafyrirtæki sem vinnur að því að gera tölvuleiki sem kveikja áhuga barna á grunnatriðum forritunar, hefur verið boðið að kynna fyrirtækið fyrir fjárfestum á ‘Investing in Games’ viðburði á Nordic Game ráðstefnunni í Svíþjóð. Á viðburðinum kynna valdir leikjaframleiðendur sig fyrir fjárfestum í ‘speed-dating’ sniði. Það má því segja að formlegt fjármögnunarferli Radiant Games sé að hefjast með ferðinni til Stokkhólms. Fyrirtækið hefur áður fengið tæplega 40 milljón króna verkefnisstyrk frá TÞS yfir þriggja ára tímabil.

radiant-games-team
Radiant Games teymið. Frá vinstri: Haukur, Þorgeir, Vignir og Guðmundur

Vignir Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Radiant Games, vill í samtali við fréttamann ekki láta uppi hvaða upphæð Radiant Games sækjast eftir í fyrstu umferð fjármögnunar. “Það er dýrt að búa til leiki að staðaldri, en við sjáum mikil tækifæri” segir Vignir, sem bendir til að fyrirtækið sækist eftir stórri seed-lotu. Til samanburðar má nefna að fyrirtækið Hopscotch, sem líkt og Radiant Games vilja kveikja áhugann á forritun með leikjavæðingu, fengu $1.2m í sinni fyrstu umferð. Það má því ætla að fjárhæðin sem þeir sækjast eftir sé í kringum milljón dollara.

Fyrirtækið hefur síðastliðna mánuði unnið að fyrsta leiknum sínum ‘Box Island’. Í leiknum notar leikmaðurinn einfaldar forritunarskipanir líkt og ‘for’ lúppur til að koma hetjunni ‘Hiro’ á ævintýraeyjunni Box Island. Hér má sjá kynningarsíðu fyrir Box Island. Vignir segir að stefnt sé að því að gefa leikinn út á Íslandi í júlí og í kjölfarið um allan heim, en að nákvæm tímasetning á útgáfunni sé óljós. Viðræður við mögulega samstarfsaðila við markaðssetningu og kynningu á íslensku útgáfu leiksins er í startholunum.