Sway að klára aðra seed umferð - Gefa út appið á næstunni

Greiðsluappið Sway hefur verið sent inn til Apple App Store í skoðunarferli og nú er beðið eftir samþykki. Appið hefur verið í betaprófunum síðastliðna mánuði og segir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Sway, að um 100 manns hafi tekið þátt í betaprófunum.

Vinnan við Sway byrjaði formlega með þátttöku í Gullegginu árið 2014, þar sem teymið komst í topp tíu sæti þátttakenda. Í apríl sama ár hófst forritunarvinna og nú, rúmu ári síðar, er komið að útgáfu. Stefnt er að útgáfu iOS á næstunni og Android útgáfu 1-2 mánuðum seinna.

sway-screenshot

Greiðslulausn innblásin af samfélagsmiðlum

Sway er greiðslukerfi, þar sem notendur geta tengt bæði kreditkort og debitkort við kerfið og gengið frá greiðslum, t.d. milli vina.

„Lausnin er innblásin af samfélagsmiðlum og hugmyndin er að taka greiðslusamskipti yfir á annað og skemmtilegra form,“ segir Arnar í samtali við Norðurskautið. “Mikil áhersla er lögð á einfalt og fallegt viðmót, þar sem myndir skipa stærstan sess.” Arnar bætir við að enginn mögulegra samkeppnisaðila hafi valið þá leið að láta myndir vera grunninn í appinu. Viðmót appsins minnir að því leitinu til á Snapchat: Fyrsti skjárinn er myndavél, og meginvirknin fæst með því að taka mynd af einhverju, stimpla inn upphæð, og senda beiðni um millifærslu á þá sem eiga að taka þátt í kostnaði.

Mikil samkeppni á markaðnum

Sway er fyrsta app sinnar tegundar hér á landi en erlendis eru ýmsir möguleikar þegar kemur að því að senda greiðslur til vina. PayPal, Square og Google Wallet bjóða öll upp á að senda pening milli einstaklinga og Venmo (sem er í eigu PayPal) reynir að gera greiðslur milli fólks að ‘social’ hlut, með fréttastreymi um hver millifærir á hvern. Fyrir utan þessa stóru greiðslumiðlara, hafa fyrirtæki eins og Facebook og Snapchat verið að færa sig inn á greiðslumarkaðinn, með Snapcash og Messenger Payments

Einn helsti munurinn á Sway og öðrum svipuðum lausnum er viðmótið. Sway byggir viðmótið á myndavélinni, sem er nýstárleg leið til að takast á við gamalt vandamál (millifærslur), og notendur – sérstaklega þeir yngri sem nota Snapchat og Instagram – ættu að vera fljótir að læra á viðmótið. Viðmótið er að mati Sway stærsta forskotið sem forritið hefur á samkeppnisaðila.

Samkvæmt Arnari mun Sway skera sig að öðru leiti frá erlendri samkeppni með því að bjóða á einfaldan hátt upp á greiðslur milli landamæra, sem hin stóru öppin gera ekki. Sú virkni er væntanleg eftir prófanir á Íslandi. Einungis PayPal býður upp á það, af þessum stærri fyrirtækjum. Einnig hefur Sway lagt mikla áherslu á þægilega umsýslan með hópagreiðslur, þar sem það er einfalt að skipta greiðslum milli margra, óháð því hvort þeir eru inn í kerfinu eða ekki, og halda utan um skiptingu, hvort sem greitt er með reiðufé eða gegnum kerfið. Venmo, sem er líklega skýrasti samkeppnisaðilinn (því Venmo inniheldur social virkni) er ekki með þessa hópaumsýslan og gerir kröfu um að notendur séu með Venmo aðgang.

Ísland þróunarmarkaður – næst haldið til Bretlands

Arnar segir að Ísland sé einskonar prufu- og þróunarmarkaður fyrir vöruna og að lokatakmarkið sé að gefa út alþjóðlega lausn sem hægt er að nota þvert á landamæri. „Við hjá Sway erum með ýmsar hugmyndir sem okkur langar til að bæta við grunnvöruna“ segir Arnar, en leggur áherslu á að það skipti máli að varan haldist einföld til að byrja með. Ætlunin er að herja næst á Bretlandsmarkað uppúr áramótum. „Seinustu mánuði höfum við verið að byggja upp tengsl inn á Bretlandsmarkað“ segir Arnar aðspurður um hvers vegna förinni sé haldið þangað. Einnig henti bakendinn sem teymið er búið að smíða í breskt umhverfi. „Markaðurinn í Bretlandi er ómótaður hvað peer-to-peer greiðslur varðar“ segir Arnar.

sway-screenshot-2

Áhersla lögð á notendur frekar en tekjustreymi

Markaðssetningin mun fyrst um sinn vera háð því fjármagni sem Sway hefur að spila úr og mun því fyrst og fremst fara fram á samfélagsmiðlum og eftir öðrum ódýrum leiðum. „Það eru þó nokkrir spennandi samstarfssamningar sem við erum að skoða“ segir Arnar, og bætir við að samningarnir myndu styrkja markaðshlutdeild forritsins töluvert, nái þeir í gegn. Hvað tekjumyndun varðar segir Arnar að áherslan sé lögð á notendaaukningu, en ekki tekjustreymi. Þar feta þeir í fótspor herskör annarra sprotafyrirtækja sem hafa farið þá leið að byggja upp stóran notandahóp á fjárfestafjármagni og einbeita sér fyrst að tekjumyndun þegar notendahópurinn er orðinn stöðugur. Facebook, Twitter og QuizUp eru meðal þeirra fyrirtækja sem hafa farið þessa leið.

Eru að loka annari seed umferð

Sway eru að loka seinni seed-lotu með hópi íslenskra fjárfesta sem mun að sögn Arnars styrkja verkefnið töluvert, bæði hvað varðar þekkingu, reynslu og fjármagn. Ekki fæst uppgefið hver upphæð fjárfestingarinnar er eða hverjir standa á bak við hana. Sway hefur áður klárað seed lotu uppá 20 milljónir ISK frá innlendum fjárfestum, sem einnig fást ekki uppgefnir. Seinni seed lotur hafa almennt verið að færast í aukana, hér má lesa greiningu á þeim hluta fjármagnsmarkaðirins.