Styttist í soft-launch á ReRunners, nýjum leik frá íslenska leikjafyrirtækinu Klang Games
Íslenska leikjafyrirtækið Klang Games sem staðsett er í Berlín stefnir á ‘soft-launch’ á leiknum ReRunners á næstunni. „Svokallað soft-launch er yfirvofandi, og byggt á niðurstöðum þaðan munum við fara út í global útgáfu,“ segir Oddur Snær Magnússon, CTO hjá Klang. „Það skiptir máli að vera búin með góða generalprufu áður en við hleypum öllum heiminum að.“
ReRunners er fjölspilunarleikur fyrir síma og spjaldtölvur, þar sem keppendur keppa í hlaupi sín á milli og nota hæfni, kænsku og sprengjur til að ná yfirhöndinni. Markmið Klang hefur verið að gera leikinn aðgengilegan. Eitt lykilatriðið að þeirra mati er að leikurinn sé ‘asynchronous’ – þ.e. að leikmenn geti spilað óháð því hvort mótherjarnir eru tengdir eða ekki. „Við byggjum allan leikinn upp á upptökum af öðrum spilurum, en teflum því fram á þannig máta að þér líður eins og þú sért að keppa við fólk í rauntíma,“ segir Oddur. „Við höfum skapað heim þar sem spilarinn getur látið karakterinn sinn þróast og skapað sinn eigin stíl. Við erum með gífurlegt fataúrval í leiknum.“ Þar að auki munu spilarar safna XP stigum sem gerir karakternum kleift að læra ný brögð og gerir persónuna betri í keppninni.
Fyrir utan spilunina er leikurinn sérstakur útslitslega. Hann er teiknaður í ‘retró’ stíl, en Oddur segir að þó að stíllinn sé retro þá sé upplifunin ekki gamaldags. „Þó hann sé í þessum pixel-art stíl, þá eru allar hreyfingar í mun fleiri römmum en við þekkjum úr þessum retro leikjum.“
Líklegt er á öllu að tekjuöflun Klang Games verði byggð á freemium módeli, svipuðu því sem þekkist úr mörgum snjallsímaleikjum í dag. Þar má nefna Clash of Clans, Candy Crush eða Crossy Road, sem er leikur í Frogger stíl sem hefur þénað meira en 10 milljónir dala á sölu stafrænna hluta inn í leiknum. Það sem vekur sérstaka athygli við Crossy Road, er að allt sem er til sölu inn í leiknum eru mismunandi útlit fyrir spilarann. Oddur og félagar hjá Klang feta svipaða slóð með því að bjóða mikið úrval fatnaðar og útlitshluta til sölu í appinu. Softlaunchið – eða generalprufan – verður líklega notað til að fínpússa tekjumódelið, stilla af verð á því sem er til sölu og finna út hvar er best að biðja spilendur að taka upp veskið og kaupa vörur til að ganga betur í leiknum eða gera persónuna sína flottari. Betur er fjallað um leikjamarkaðinn í nýlegu hlaðvarpi Norðurskautsins um App hagkerfið.
Klang Games er í viðræðum við fjárfesta fyrir extended seed fjármögnun. Samkvæmt heimildum Norðurskautsins er um að ræða virta fjárfesta sem sérhæfa sig í fjárfestingum í leikjafyrirtækjum. Klang Games, sem er meðal annarra stofnað af fyrrum starfsfólki CCP og Munda fatahönnuði, hefur áður fengið seed-fjármögnun frá Plain Vanilla Ventures GmbH (fjárfestingasjóður algjörlega ótengdur íslenska fyrirtækinu Plain Vanilla).