Radiant Games gefa út Box Island í dag

Leikjaframleiðandinn Radiant Games gefur út fyrsta leikinn sinn, Box Island, í dag fyrir iPad. Hægt er að nálgast leikinn hér, en samkvæmt fréttatilkynningu hentar hann 8 ára og eldri. Leikurinn fæst á íslensku.

Leikendur stjórna hetjunni Hiro sem er í svaðilför að bjarga vini sínum eftir að loftbelgurinn þeirra brotlenti á eyjunni Box Island. Til að komast nær takmarkinu þurfa leikendur að leysa þrautir og nota til þess tól eins og lykkjur og skilyrðissetningar sem einnig er að finna í forritun.

Í samtali við Norðurskautið segir Vignir að þeim hafi þótt mikilvægt að hafa leikinn á íslensku, en notendaprófanir hafi sýnt að börnum á þessum aldri hafi þótt erfitt að leysa rökþrautirnar samhliða því að þýða leiðbeiningarnar af ensku.

Markmið Radiant Games er að búa til leiki fyrir börn sem kveikja áhuga þeirra á forritun. Ástæðuna segir Vignir vera að rannsóknir bendi til að þróun á vinnumarkaði vera þá að á næstu 20 árum verði um 45% starfa í Bandaríkjunum gerð sjálfvirk af tölvum. „Það má leiða líkur til þess að þróunin verði svipuð hér á landi.“

RadiantTeam
Radiant Games. Frá hægri: Guðmundur, Þorgeir, Vignir og Haukur

Radiant Games var stofnað 2014 og sama ár hlaut fyrirtækið verkefnisstyrk frá Tækniþróunarsjóð Rannís að upphæð 12,5 milljónir á ári ásamt því að lenda í 2. sæti í frumkvöðlakeppninni Gullegginu.