Klak Innovit útbýr grunn að hluthafasamkomulagi

Klak Innovit vinnur nú að gerð hluthafasamkomulags sem stofnendur sprotafyrirtækja geta nýtt sér sem grunn fyrir sitt eigið samkomulag. Hluthafasamkomulagið verður aðgengilegt öllum en Klak Innovit kallar nú eftir viðbrögðum frá frumkvöðlum um hvaða ákvæði þeir vilja að séu í samningnum.

Hluthafasamningur er nauðsynlegur þegar sprotafyrirtæki hefur fleiri en einn stofnanda. Flestir þeirra taka á hlutum eins og skiptingu á eignarhlut, kauprétti og á hversu löngum tíma hann verður til, biðtíma kaupréttar og hlutverki og ábyrgð stofnenda innan fyrirtækisins. Auk þess þarf að gæta að því að hugverk fyrirtækisins (kóði, logo o.s.frv.) séu eign þess sjálfs. Frekari lestur um hvað þarf að varast (á ensku): 4 Deadly Legal Mistakes That Startups Make.

Samkvæmt Ragnari Kormákssyni, hjá Klak Innovit, hefur verið mikil eftirspurn eftir samkomulagi sem þessu en áætlað er að hluthafasamkomulagið verði aðgengilegt í september en það er unnið í samstarfi við lögfræðistofuna Advel.

Frumkvöðlar sem hafa ábendingar um samkomulagið geta sent Ragnari póst á netfangið ragnar(at)innovit.is