Fjögurra ára regla til að uppfylla alþjóðleg viðmið

Á ráðstefnunni Startup Iceland sem haldin var í lok maí þá kynnti Deloitte þau skref sem fyrirtækið ætlar að taka til að styðja við sprotaumhverfið á Íslandi. Meðal annars með svokölluðum Fast 50 lista fyrir íslensk sprotafyrirtæki sem verður kynntur 23. október. Á listann komast eingöngu fyrirtæki sem selja og þróa eigin tækni. (Sjá umfjöllun Norðurskautsins hér)

Norðurskautið tweetaði frá viðburðinum og í kjölfarið á því kviknaði umræða á Twitter um málið þar sem frumkvöðlarnir Vignir Örn Guðmundsson og Jökull Sólberg Auðunsson spurðu út í skilyrðið sem Deloitte setur um að fyrirtæki þurfi að hafa verið starfandi í fjögur ár til að komast á listann.

@nordurskautid mjög skrýtið að fyrirtæki þurfi að vera 4 ára eða eldri — Snapchat var stofnað júlí 2011
— Jökull Sólberg (@jokull) May 27, 2015
@jokull @nordurskautid algjörlega, í það minnsta fyrir tech fyrirtæki og líklega flestar tegundir fyrirtækja
— Vignir Gudmundsson (@vignirgudmunds) May 27, 2015

//platform.twitter.com/widgets.js

Snýst um að byggja brýr

Haraldur Birgisson

„Mjög góð spurning,“ sagði Haraldur Ingi Birgisson hjá Deloitte þegar Norðurskautið hitti hann og bar undir hann spurningar frumkvöðlanna. „Við þurfum að vera með viðmið sem er auðvelt að bera saman á milli ríkja. Þetta er samanburðarhæfni fyrst og fremst en við styðjumst við evrópsku viðmiðin.“ Einn meginkostur listans er að sögn Haraldar möguleikinn fyrir íslensk fyrirtæki að komast á stærri, alþjóðlega lista sem opna ýmsar dyr á tengingar og fjármögnun fyrir sprotafyrirtæki. „Listinn gengur út á að byggja brýr. Svo við vildum ekki vera að lækka okkar viðmið og þá væri bara ákveðinn hluti af Fast 50 sem ætti möguleika á að komast inn á EMEA listann.“ Haraldur bendir á frumkvöðulinn og plötusnúðinn Sebastian Hooft (hér er hægt að skoða myndband af erindi hans á Startup Iceland) sem komst á Hollenska Fast 50 listann og EMEA Fast 500 listann og fékk eftir það símtöl frá fjárfestum sem síðar keyptu stóran hlut í fyrirtækinu hans. Þetta kom fram í samtali Sebastian og Deloitte teymisins eftir Startup Iceland í maí síðastliðnum.

Aðspurður sagðist Haraldur bjartsýnn á að það náist 50 fyrirtæki á listann. „Miðað við tölur frá Hagstofunni þá hafa undanfarin ár verið stofnuð um 400 fyrirtæki í hugbúnaðargerð á ári frá 2008. Ég er vongóður um að ná 50 fyrirtækjum á listann, hvort þau verði öll að vaxa um hundruð eða þúsundir prósenta verður síðan að koma í ljós.“

Koma til móts við yngri fyrirtæki með Rising Star

Önnur ábending kom á Twitter hvað varðar lágmarksaldur félaga á listanum, en stór fyrirtæki eins og Snapchat kæmust ekki á hann vegna aldurs, þar sem Snapchat er innan við fjögurra ára. „Við reynum að koma til móts við þau fyrirtæki með Rising Star verkefninu, sem er keyrt samhliða. Fyrirtæki sem ná ekki fjögurra ára aldrinum eða veltunni til að komast á Fast 50 geta skráð sig í Rising Star. Þar er sex manna dómnefnd fólks með fagþekkingu og reynslu úr tæknibransanum sem velur Rising Star fyrirtækið, sem horfir einkum til þess hverjir vaxtarmöguleikar fyrirtækisins eru.“

IP-box sækjast eftir íslenskum tæknifyrirtækjum

Nokkur lönd Evrópu eru með svokallað IP-box skattafyrirkomulag en þá eru tekjur af einkaleyfum með lægra skattþrep en önnur skattskyld starfsemi. Þetta er í dag gert til að laða að tæknifyrirtæki en kostnaður landanna er lítill og skatttekjur af tæknifyrirtækjum sem ganga vel geta orðið mjög háar í samanburði við kostnað, þótt skattahlutfallið sé mun lægra.

Hjá Deloitte er starfandi nýsköpunarteymi, sem í sitja fulltrúar frá öllum sviðum fyrirtækisins, sem ráðleggur sprotafyrirtækjum með fjármögnun, skatta, bókhald, gjaldeyrishöft, markaðssetningu og margt fleira. „Þetta eru frumkvöðlar sem eiga að geta einbeitt sér að því sem þeir eru bestir í og við léttum af þeim pappírsbyrðunum sem fylgja rekstrinum,“ segir Haraldur um nýsköpunarteymið.

Deloitte býður fjölbreytt kostnaðarfyrirkomulag fyrir sprotafyrirtæki. Hægt er að fá mismunandi pakka eftir því hvar þarfirnar liggja. Til að mynda er hægt að fá pakka sem inniheldur eingöngu bókhalds- og lögfræðiþjónustu. Ef fyrirtæki er í leit að fjármögnun er mögulegt að fá mjög góð kjör en borga þá meira síðar ef vel gengur. „Það er eitthvað sem við þekkjum í fjármálaráðgjöf, ef að vel gengur þá er tekin einhver smá klípa af því sem fékkst umfram væntingar,“ segir Haraldur.

„Fyrsta spurningin sem við fáum oftast frá frumkvöðlum sem koma til okkar er um gjaldeyrishöftin og hvernig eigi að stofna félag í öðru landi,“ segir Haraldur og bætir við: „Þeir sem eru komnir aðeins lengra eru oft að velta fyrir sér skattalegum hvötum. Eitt af því sem við sjáum mikið af úti eru þessi svokölluðu IP-box.“ Haraldur segir að Deloitte finni mikið fyrir áhuga nýsköpunarteyma hjá Deloitte í öðrum löndum en þar er mikill vilji fyrir því að fá íslensk vaxtarfyrirtæki á tæknisviðinu.

„Það sem kom mér svo á óvart, því íslensku fyrirtækin eru oft lítil í þessum alþjóðlega samanburði, er að erlendu teymin vilja samt gera mjög margt til að fá fyrirtækin til sín. Sem er bara frábært og þar er áherslan á tækni, því tækni er alþjóðleg.“