Authenteq á leið í Startup Bootcamp Mobile í Kaupmannahöfn

Authenteq, app sem býður upp á sjálfvirka auðkenningu og rafræn skilríki, er á leið í viðskiptahraðalinn Startup Bootcamp Mobile í Kaupmannahöfn í sumar. „Okkur var boðið að vera hluti af 15 fyrirtækja hópi sem tók þátt í ‘Selection Days’ helgi fyrir nokkru, þar sem við vorum spurð spjörunum úr í tvo daga samfleytt, um fyrirtækið og vöruna. Við erum eitt fyrirtæki af átta sem komumst að, og eina fyrirtækið sem er ekki búið að gefa út vöru ennþá,“ segir Kári Þór Rúnarsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóri Authenteq.

„Við vorum í Startup Reykjavík í fyrra, en þá vorum við með aðra hugmynd. Okkur fannst því tilvalið að taka þátt í Startup Bootcamp,“ segir Kári, en meðalfjárfesting í fyrirtækjum sem útskrifast úr Startup Bootcamp er €490,000 (um 73 milljónir íslenskra króna) svo Kári og teymið er að vonum spennt. „Já, það sakar ekki að árangurinn þarna sé svona góður!“

Áður en Authenteq-hópurinn komst inn í Startup Bootcamp voru þau í leit að fjármagni (seed-round). „Við erum búin að setja þá vinnu á ís í bili,“ segir Kári, og segir að með peningnum sem Startup Bootcamp fjárfestir og styrkjunum sem Authenteq hefur fengið (fengu 10 milljóna króna styrk frá Tækniþróunarsjóði) geti teymið einbeitt sér að því að þróa vöruna, fyrirtækið og fara í fjármagnsleit seinna með betra tilboð fyrir tilvonandi fjárfesta, sem felur einnig í sér betra verðmat (valuation) fyrir Authenteq.

Samkvæmt Kára voru þrjár ástæður fyrir því að Authenteq sótti um að komast að í Startup Bootcamp. Tengslanet, bæði við tilvonandi samstarfsfélög og kúnna, aðgangur að fjármagni og betra veður. „Eftir þennan glataða vetur, verðum við einfaldlega að fá smá sumar.“

Authenteq hugbúnaðurinn býr til einkenni fyrir notandann, sem sannreynir að hún sé sú sem hún segist vera. Hugbúnaðurinn biður notandann um að taka tvær myndir, eina af útgefnu ríkisskilríki eins og ökuskírteini eða passa, og eina ‘sjálfu’. Authenteq notar svo flókna myndgreiningu m.a. til að ganga úr skugga um að um lifandi manneskju sé að ræða, hvort skilríkin séu ósvikin og framkvæma röð af öðrum öryggisprófunum.

„Þegar Authenteq auðkennið hefur verið útbúið tengjum við það við aðgang notandans að viðkomandi þjónustu,“ segir Kári, sem var einn þeirra sem pitchaði sprotafyrirtæki á Startup Iceland hátíðinni. Kynningin á Authenteq hófst á hryllingssögu um fólk sem leigði út íbúð á Airbnb, en leigjendurnir notuðu dulnefni til að leigja og lögðu íbúðina í rúst. „Við erum að minnka áhættuna sem fylgir því að eiga í viðskiptum við ókunnugt fólk á netinu.“

Fyrst um sinn mun Authenteq einbeita sér að markaðstorgum á netinu, og mun fá tekjur fyrir hvern notanda sem notar Authenteq til að auðkenna sig á markaðstorginu. Varan er komin í lokaðar beta prófanir og geta samstarfsaðilar fyrirtækisins tengt sína þjónustu við Authenteq og prófað tenginguna. Auk markaðstorga segir Kári að fjármálafyrirtæki og veðmálasíður hafi sýnt Authenteq áhuga. „Við erum lítið startup, og ætlum að einbeita okkur að einum markaði til að byrja með,“ segir Kári um ástæður þess að þau séu ekki að selja þeim fyrirtækjum lausnina.