Deloitte kynnir Technology Fast 50 listann á Íslandi

Forstjóri Deloitte, Sigurður Páll Hauksson, var rétt í þessu að kynna Technology Fast 50 listann, nýtt verkefni hjá Deloitte á Íslandi. Fast 50 listinn er alþjóðlegur listi af ört vaxandi tæknifyrirtækjum, sem er gerður einu sinni á ári af aðildarfyrirtækjum Deloitte International víðsvegar um heiminn. Fyrir utan Fast50 á Íslandi munu íslensk fyrirtæki eiga tækifæri á að komast á Evrópska Fast500 og Global 100 lista fyrir tæknifyrirtæki. Ásamt Deloitte standa Félag Kvenna í Atvinnulífinu og Samtök Iðnaðarins að baki framtakinu. Hér má lesa um Deloitte Fast 500 listana á Wikipedia og kynningarsíða Fast50.is opnaði í dag.

Samkvæmt Haraldi Inga Birgissyni hjá Deloitte, vekur Fast50 listinn áhuga fjárfesta og aðstoðar fyrirtækin sem á honum eru að fá athygli erlendis. Markmiðið er að koma íslensku fyrirtækjunum á erlendu listana, og auka þannig sýnileika íslenskra fyrirtæka á erlendri grundu.

Opnað verður fyrir umsóknir á listann þann 1. júní á Fast50.is. Þar geta öll tæknifyrirtæki, sem eru fjögurra ára eða eldri, sent inn upplýsingar og komist þannig mögulega á listann. Listinn byggir á prósentuaukningu veltu fyrirtækjanna. Yngri fyrirtæki fá einnig athygli, en á ári hverju verður Rising Star fyrirtæki valið. Fyrirtæki fá tækifæri til að pitcha fyrir dómnefnd, sem velur tvö fyrirtæki – eitt þar sem karlar eru í meirihluta, og eitt þar sem konur eru í meirihluta. Fyrirtæki með jöfn kynjahlutfjöll geta verið í báðum flokkum.

Fyrsti Fast50 listinn verður kynntur í haust á Fast50 viðburði.